Eftir að slys hefur átt sér stað kunna að vakna upp fjölmargar spurningar og er hér að finna svör við algengustu spurningunum sem við fáum. Hafir þú frekari spurningar eða vilt fá nánari upplýsingar um slysabætur hvetjum við þig til að hafa samband við okkur.
Er dýrt að leita réttar síns?
Fyrsta viðtal hjá lögmönnum Miska er alltaf ókeypis. Kostnaður við okkar þjónustu er ekki greiddur fyrr en skaðabætur eru greiddar. Ef viðkomandi einstaklingur fær engar skaðabætur greiddar þá gera lögmenn Miska ekki kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar þegar um er að ræða umferðaslys nema sérstaklega sé um það samið. Slíkt er þó eingöngu gert í undantekningartilvikum, eins og t.d. þegar tryggingafélag hefur þegar hafnað bótaskyldu.
Fyrningar og frestir
Best er að ráðfæra sig við lögmann sem fyrst eftir að slys á sér stað. Bótarétturinn vegna umferðarslysa fyrnist fjórum árum eftir batahvörf (stöðugleikapunkt) og ekki er hægt að sækja bætur ef 10 ár eru liðin frá slysi.
Það skiptir miklu máli að leita sér læknisaðstoðar strax í kjölfar slyss og tilkynna slysið til tryggingarfélagsins.
Hvaða bætur eru greiddar fyrir umferðarslys?
Uppgjör bóta fyrir umferðarslys fer fram á grundvelli skaðabótalaga, nr. 50/1993. Greiddar eru bætur fyrir þjáningar, tímabundið tekjutjón, ef því er fyrir að fara, varanlegan miska og varanlega örorku.
a. Þjáningarbætur
Þjáningabætur sem greiddar eru af tryggingarfélögum, á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993, eru fyrir tímabilið frá því tjón varð og þangað til ekki er að vænta frekari bata. Almennt er átt við þann tíma sem tjónþoli getur ekki unnið en um er að ræða fasta fjárhæð fyrir hvern dag.
b. Tímabundið vinnutap
Sá lendir í umferðarslysi getur átt rétt á bótum frá tryggingarfélagi fyrir þann tíma sem hann getur ekki unnið ef vinnuveitandi hefur ekki greitt tjónþola laun í forföllum frá vinnu.
c. Varanlegur miski
Mat á varanlegum miska miðast við það tímamark þegar heilsufar tjónþola er orðið stöðugt. Matið er í grunninn læknisfræðilegt og er einkum horft til eðlis og afleiðinga tjóns og þeirra erfiðleika sem tjónið veldur í lífi tjónþola.
d. Varanleg Örorka
Tryggingarfélög greiða skaðabætur fyrir varanlega skerðingu á getu til að afla vinnutekna, er þetta jafnan nefnt varanleg örorka. En þegar einstaklingur lendir í umferðaslysi eru afleiðingarnar oft þær að viðkomandi getur ekki aflað jafn mikilla tekna í framtíðinni. Einnig getur þetta orðið til þess að einstaklingur getur þurft að minnka við sig vinnu fyrr á lífsleiðinni en hann hefði gert hefði hann ekki orðið fyrir umferðaslysi. Þegar varanleg örorka er metin er litið til þess hvaða tjóni ákveðinn áverki veldur tilteknum einstaklingi. Eru því skoðaðir þættir eins og aldur, menntun, starfsreynsla, búseta og fleiri einstaklingsbundnar forsendur. Með öðrum orðum merkir þetta það að ef tveir einstaklingar missa fingurinn þá fengi til að mynda píanóleikari hærri prósentu metna heldur en bankastarfsmaður.
Skaðabætur sem greiddar eru vegna miska eru í raun bætur vegna ófjárhagslegs tjóns. Þegar slíkar bætur eru metnar er ekki tekið tillit til einstaklingsbundinna forsendna eins og starfsreynslu, menntunar o.fl. Með öðrum orðum merkir þetta það að ef tveir einstaklingar missa fingurinn þá eru sömu skaðabætur greiddar til þeirra þrátt fyrir að annar þeirra sé píanóleikari en hinn bankastarfsmaður.
Útlagður kostnaður og sjúkrakostnaður
Tjónþoli getur þurft að leggja út fyrir ýmsum kostnaði en hann á rétt á endurgreiðslu á útgjöldum, t.d. vegna læknismeðferðar- eða hjápar, dvalar á sjúkrahúsi, endurhæfingar og sjúkraflutnings. Undir þetta getur einnig fallið annar kostnaður eins og útgjöld vegna stoðtækja, leigubifreiða o.s.fr.v. Mikilvægt er að varðveita frumrit af öllum reikningum og öðrum kostnaði sem fellur til vegna líkamstjóns.