Framvinda málsóknar
18.9.2014
Þann 21. júlí sl. var hópmálsókn gegn Tuv Rheinland sem 140 íslenskar konur tóku þátt í þingfest í Frakklandi. Málinu var frestað til 4. september sl. og bættust þá við kröfur 64 íslenskra kvenna.
Skjólstæðingar Miska lögmannsstofu eru hluti af hópmálsókn sem beint er gegn TUV Rheinland fyrir dómstól í Toulon, Frakklandi. Málsóknin fylgir eftir annarri málsókn sem Olivier Aumaître vann gegn fyrirtækinu í nóvember 2013 og var TUV talið skaðabótaskylt gagnvart þeim 1.700 konum sem stóðu að málsókninni og höfðu fengið græddar í sig brjóstafyllingar af gerðinni PIP.
Hópurinn sem stendur að baki þessari málsókn er um 9.000 konur sem höfðu fengið PIP fyllingar græddar í sig. Hópurinn skiptist þannig eftir löndum:
6.000 einstaklingar frá Suður- Ameríku, flestir frá Brasilíu og Kólumbíu.
2.700 einstaklingar frá hinum ýmsu Evrópulöndum.
300 einstaklingar frá öðrum löndum, þ.m.t. Frakklandi.
Nokkur fjöldi lögmanna hefur aðkomu að málinu eða um fimmtán talsins.
Þann 4. september síðastliðinn voru kröfur í málinu lagðar fyrir dómstólinn ásamt fylgiskjölum og hafa lögmenn TUV fengið afrit af framlögðum málsgögnunum.
Lögmenn TUV óskuðu eftir því að málinu yrði frestað á nýjan leik, fram í desember. Þeir reistu kröfu sína á þeim grundvelli að málið sé ekki sambærilegt því máli sem vannst í nóvember 2013. Þeir töldu að það þyrfti að fresta málinu svo unnt væri að kynna sér málsgögnin og ganga úr skugga um að þau væru fullnægjandi. Óskuðu þeir ennfremur eftir því að málinu yrði frestað þar til áfrýjunarréttur hefði kveðið upp dóm í máli sem vannst í undirrétti í nóvember 2013. Ef fallist hefði verið á beiðni TUV hefði mál íslensku kvennanna frestast fram á fyrri hluta árs 2015.
Þessum kröfum TUV var mótmælt af hálfu Olivier Aumaître lögmanns.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki yrði heimilt að bæta fleiri kröfum inn í málið og að lokadagur til að afhenda málskjöl yrði 4. Október nk. Dómstóllinn ákvað einnig að næsta fyrirtaka í málinu yrði þann 6. nóvember næstkomandi og verður þá ákveðið hvenær efnisleg meðferð málsins hefst. Líklega mun það verða í janúar eða febrúar 2015.
Málið sem Olivier Aumaître vann fyrir hönd 1.700 kvenna gegn TUV Rheinland í nóvember 2013 verður tekið fyrir af áfrýjunarrétti í Frakklandi þann 11. desember næstkomandi. Aumaître áætlar að niðurstaða í því máli muni liggja fyrir tveimur til þremur mánuðum seinna, í febrúar eða mars 2015.
Dómur í hinu áfrýjaða máli gæti haft áhrif á framvindu hópmálsóknarinnar sem íslenskar konur eru hluti af og hvernig dagskrá hennar verður hagað. Olivier Aumaître gerir ekki ráð fyrir að niðurstaða í hópmálsókninni fáist fyrr en að áfrýjunarrétturinn hefur fellt dóm.
Hann telur að dagskrá máls íslensku kvennanna gæti farið tvo vegu:
Í fyrsta lagi er mögulegt að efnislegri meðferð málsins verði frestað þar til dómur áfrýjunardómstólsins liggur fyrir.
Ef efnismeðferðinni verður ekki frestað eru líkur á að dómstóllinn muni bíða með að dæma í málinu þar til áfrýjunarrétturinn hefur fellt sinn dóm og muni þá taka tillit til hans í niðurstöðu sinni um hópmálsóknina.
Almennar upplýsingar
Miski, í samstarfi við Oliver Aumaître og Vox lögmannsstofu, vinnur nú að hópmálsókn í Frakklandi á hendur vottunaraðila PIP- brjóstafyllinganna, TÜV Rheinland. Konur sem slíkar brjóstafyllingar voru græddar í geta átt rétt á bótum vegna slíkra brjóstafyllinga. Konur sem eru eða hafa verið með PIP brjóstafyllingar eru hvattar til að hafa samband við okkur til að fá frekari upplýsingar um rétt sinn til bóta. Hér er þó að finna algengustu spurningar sem okkur hafa borist vegna málsins.
Hvenær þarf ég að hafa fengið brjóstafyllingarnar?
Í undangenginni málsókn, þar sem staðfest var bótaskylda TÜV Rheinland, var ekki tekin afstaða til brjóstafyllinga sem framleiddar og vottaðar voru fyrir árið 2001. Réttarstaða þeirra kvenna er því ekki eins sterk, en þó hefur verið ákveðið að stefna málinu einnig fyrir hönd þeirra kvenna sem það kjósa.
Hvaða gagna þarf ég að afla?
Annars vegar verður að afla gagna vegna aðgerðarinnar þegar fyllingarnar voru græddar í og hins vegar frá því að þær voru fjarlægðar. Ef um fleiri aðgerðir er að ræða vegna PIP er gott að hafa upplýsingar um þær. Gögnin eru aðgerðarskýrslur, sjúkrasaga og önnur tengd gögn, afrit af PIP korti með framleiðslunúmeri brjóstafyllinganna og að lokum afrit af reikningum eða staðfesting á kostnaði aðgerða. Framlagning annarra vottorða og gagna er metin með hliðsjón af afleiðingum og tjóni hverrar og einnar konu. Miski hefur útbúið stöðluð bréf með beiðni um afhendingu gagna sem unnt er að senda beint á þá aðila sem búa yfir umræddum upplýsingum. Vinsamlegast hafið samband til að fá eintak af þeim.
Hver er minn kostnaður?
Eftir að allra gagna hefur verið aflað þá eru þau afhent Miska og er þá skrifað undir umboð vegna málsóknarinnar og greidd eingreiðsla vegna málshöfðunarkostnaðar, 25.000 kr. Þetta er eina greiðslan sem lagt er út fyrir en þóknun vegna lögmannsstarfa er eingöngu greidd ef bætur fást greiddar. Tapist málið þurfa þátttakendur ekki að greiða frekari kostnað.
Ég er búsett erlendis?
Bótakrafa málsóknarinnar er ekki háð búsetu, enda rekur Aumaître lögmaður mál fyrir hönd kvenna víðsvegar að úr heiminum.
Hvenær þarf ég að skila gögnunum?
Fyrsta málið fyrir íslenskar konur verður þingfest 21. júlí 2014. Ef þú vilt taka þátt í þeirri málsókn verða öll gögn að vera komin til okkar fyrir 11. júlí 2014.
Þarf læknisvottorðið mitt að vera á ensku?
Vottorðið má vera hvort heldur á íslensku eða ensku, en það sparar vissulega tíma sé það gefið út á ensku af heimilislækninum.
Þarf ég að óska eftir að fá sjúkraskrána mína afhenta frá Landspítalanum?
Þú þarft einungis gögn vegna aðgerða í tengslum við PIP brjóstafyllingar og eftirfylgni þeirra. Afhending þeirra ætti að taka skemmri tíma en heildarsjúkrakrá, sem tekur 4-6 vikur.
Ég á ekki kvittun eða reikning fyrir aðgerðinni?
Hluti af þeim gögnum sem óskað er eftir í stöðluðu beiðnunum eru afrit af reikningum eða staðfesting á kostnaði við aðgerð.
Ég hef ekki ennþá látið fjarlægja púðana?
Það er ekki skilyrði að brjóstafyllingarnar hafi verið fjarlægðar til að taka þátt í málsókninni.
Ég fór í sónar hjá leitarstöðinni, á ég að leggja fram þau gögn?
Best er að leggja fram öll gögn er varða heilsufar og líkamlegt ástand tjónþola og geta haft áhrif á mat á afleiðingum. Því er mælt með að leggja fram öll gögn sem til staðar eru.