Þegar tjónþoli hefur samband við Miska er ákveðinn fundur með honum. Á fundinum undirritar tjónþoli umboð þar sem hann heimilar lögmönnum Miska að afla allra nauðsynlegra gagna, semja um bætur og taka á móti greiðslum fyrir hans hönd. Á fundinum er slysið einnig tilkynnt til tryggingafélagsins. Það skiptir miklu máli að slys sé tilkynnt sem fyrst því annars getur réttur til skaðabóta fallið niður.

Lögmenn Miska afla síðan allra gagna sem nauðsynleg eru, t.d. skýrslna frá Árekstri og öryggi, lögreglu, vottorða frá læknum o.fl. Sá lögmaður sem sér um málið er síðan í reglulegu sambandi við tjónþola og sér t.d. um að innheimta fyrir hann útlagðan kostnað vegna lyfja, sjúkraþjálfunar o.fl. Almennt er orðið tímabært að meta afleiðingar slyss eftir um eitt ár. Þegar sá tími er liðinn sendir lögmaðurinn tjónþola til sérfræðings til þess að fá upplýsingar um afleiðingar slyssins. Þegar öll vottorð eru komin og ljóst er að tímabært er að meta afleiðingar tjónsins þá er tjónþoli boðaður á fund hjá lögmannsstofunni. Þá er tekin saman greinargerð um afleiðingar slyssins. Í kjölfarið fer fram mat á því tjóni sem slysið olli. Lögmaðurinn fer ávallt með tjónþola á matsfund. Þegar niðurstaða matsins liggur fyrir sendir lögmannsstofan kröfubréf á tryggingafélagið. Skaðabæturnar eru síðan lagðar inn á reikning lögmannsstofunnar.

Lögmaðurinn er ávallt til staðar og svarar öllum þeim spurningum sem kunna að vakna í ferlinu. Það er algengt að uppgjör á skaðabótum fari fram um tveimur árum eftir slys. Það skiptir hins vegar miklu máli að tjónþoli leiti aðstoðar lögmanns sem fyrst eftir slys.